Nú þegar allar bjartsýnisvonir um notalega haustferð til útlanda eru foknar út í Covid-rokið er tilvalið að taka landakortið upp á ný og reyna að finna mestu útnára og kjálka landsins, þar sem maður getur notið þess að vera einn í stórbrotinni náttúru, ekki með áhyggjur af neinu, hvorki af tveggja metra reglu eða fjöldatakmörkunum. Ferðalag þar sem sprittbrúsinn þarf ekki að vera þinn helsti ferðafélagi.

Besta leiðin til að finna einhvern stað þar sem þú getur verið fullkomlega einn er að finna stað þar sem enginn er að reyna að selja þér neitt og enginn græðir (eða tapar) á því að hafa þig þar. Það má auðvitað bara klæða sig í gönguskó og setja á sig bakpokann og labba upp á mitt hálendið, en fæst nennum við því, svona þegar haustið er farið að blása yfir landið með kulda og rigningu.

Því langar mig að segja ykkur frá einni mögnuðustu akstursleið sem til er á Íslandi. Það er Svalvogavegur, sem liggur á milli Dýrafjarðar og Arnarfjarðar á Vestfjörðum. Vegurinn tengir saman þessa tvo fallegu vestfirsku firði auk þess að liggja á milli tveggja merkra vestfirðinga, þá Gísla Súrsson í Haukadal og Jón Sigurðsson á Hrafnseyri.

Ég keyrði þessa leið í dag, byrjaði á Þingeyri og endaði þar, 4 klst. og 70 km. síðar sem telst nú varla mikill meðalhraði. Leiðin er bæði torfær og seinleg yfirferðar, enda enginn að drífa sig. Þetta snýst um að njóta ferðarinnar, félagsskaps, náttúru og dýralífs.

Það er ágætt að taka það fram að þetta er ekki leið sem þú ferð á bílaleigu-Yaris, en flestir jepplingar ættu að ráða við Svalvogahringinn. Það er þó í þessu eins og svo mörgu öðru að stærðin skiptir máli og því stærri sem bíllinn er, því betra.

Eins og sjá má eru vegirnir ansi háskalegir á köflum, en það er allt partur af þessari mögnuðu upplifun sem þessi leið er. Fyrir lofthrædda er sjálfsagt ágætt að fara “öfugan hring” það er að segja, að keyra frá Arnarfirði yfir í Dýrafjörð. – Þó kýs ég það alltaf sjálfur að keyra frá Dýrafirði yfir í Arnarfjörð.

Við fórum þessa leið í dag í grenjandi rigningu, sem er langt frá því að vera síðra en í glampandi sól, enda er það svo að þó Vestfirðirnir séu yndislegir á sólríkum degi þá eru þeir upp á sitt besta þegar þokuslæðurnar læðast niður fjöllin og regnið rífur upp allt litróf náttúrunnar. – Athugið þó, að það er hætta á skriðuföllum í mikilli vætutíð.

Víða á leiðinni má sjá magnaða kletta og bergmyndanir, bæði á landi og í sjó. – Það er í raun svo að maður er alltaf að sjá eitthvað nýtt og engin leið að komast yfir alla töfra svæðisins í einni ferð.

Þar sem Dýrafjörður og Arnarfjörður mætast má finna Svalvogavita. Þar stendur hann, einn og yfirgefinn fyrir opnu úthafi. Vitinn er opinn gestum og gangandi. Víðsvegar á leiðinni eru frábærir áningastaðir þar sem það er hægt að bregða sér út með gott nesti og heitt kakó og njóta þess að vera til, í margra kílómetra fjarlægð frá næsta byggða bóli.

Á leiðinni má sjá hvernig stærðar grjót, klettar og berg hafa fallið niður himinhá bergin, með skriðum eða snjóflóðum undanfarin árþúsundin og hlykkast vegurinn þar á milli. Maðurinn verður svo smár í þessu samhengi, bæði í tíma og rúmi. En inn á milli kletta og bjarga má víða finna vestfirsk aðalbláber, krærkiber og aðrar nytjajurtir sem gleðja svanga ferðalanga.

Það má sjá óteljandi fossa af öllum stærðum og gerðum á leiðinni, enda er það svo að það eru fleiri fossar en fólk á Vestfjörðum. (Þvílíkur drauma Covid-fjórðungur) Við vorum á ferð um Svalvogana í mikilli rigningu og því fossafjöldinn margfaldur og víða sem ár og lækir runnu yfir veginn, en engir það stórir að þeir heftu för okkar.

Það þarf aftur á móti að sæta sjávarföllum þegar Svalvogarnir eru keyrðir þar sem hluti vegarins er undir sjávarmáli. Hér má sjá okkur keyra bókstaflega undir berginu, þar sem sjórinn hefur sorfið sig inn í bjargið og fyrir vikið er hægt að keyra undir það að hluta og inn á milli kletta á öðrum stöðum, þar sem sjórinn hefur grafið sig í gegn.

Á leiðinni má sjá einstaka yfirgefin eyðibýli sem standa sem minnisvarðar um forna tíma og þá sem nutu þeirra forréttinda að fá að alast upp og lifa í nálægð við stórbrotin náttúruöflin á Vestfjörðum.

Þegar komið er að Hrafnseyri, fæðingarstað Jóns Sigurðssonar á aðeins eftir að fara Hrafnseyrarheiðina yfir til Þingeyrar. Þó flestir fagni opnun nýrra jarðgangna á milli Dýrafjarðar og Arnarfjarðar þá munu margir sakna þess magnað útsýni sem Hrafnsheiðin bíður upp á. Hvernig það má sjá veginn hlykkjast eins og snákur niður í Arnafjörð.

Það að keyra Svalvogana er hin fullkomna dagsferð, hvort sem það er á bíl, hjóli eða tveimur jafn fljótum. Þetta er einstök náttúruperla sem er temmilega aðgengileg, svo flestir geta notið hennar, án þess að vera að þvælast fyrir öðrum ferðamönnum.

Góða ferð!

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s