Barnabókin um sundafrek Sæunnar komin út!

Í dag var útgáfu bókarinnar um Sundkýrina Sæunni fagnað með fjölmenni í Gömlu Bókabúðinni á Flateyri. Nú er loksins þessi magnaða sanna saga um Sæunni komin á prent, þar sem hún flúði örlög sín með sundi yfir Önundarfjörðinn, þegar það átti að leiða hana til slátrunar.

Var helstu persónum sögunar gefin fyrstu eintök bókarinnar við hátíðilega athöfn í Gömlu Bókabúðinni í dag ásamt því sem rithöfundurinn las upp úr bókinni. Bókin er nú fáanleg í öllum betri bókabúðum á Íslandi, og auðvitað Í Gömlu Bókabúðinni á Flateyri, sem er opin alla laugardaga í vetur frá kl. 12:00 – 16:00. Einnig má panta áritað eintak af bókinni á vefsíðu okkar, með því að smella hérna eða þá með því að senda okkur tölvupóst í netfangið jovinsson@gmail.com.

Eyþór, verslunarsjóri Gömlu Bókabúðarinnar og höfundur bókarinnar var einnig í viðtali í Mannlega þættinum á Rás 1 og má lesa nánar um það hér á vefsíður Rúv.

Fyrstu eintökin afhend Bændahjónunum í Breiðadal og Valþjólfsdal.

Stærsta sveppategund heims fannst í garði Gömlu Bókabúðarinnar á Flateyri.

Verslunarsjórinn hefur lengi langað til að prófa að týna villta matsveppi, sem er svo mikið um á Vestfjörðum, en hefur aldrei almennilega þorað því. En eftir að hafa legið aðeins yfir Sveppahandbókinni sem er til sölu hjá Gömlu Bókabúðinni ákvað ég að slá til og skella mér í sveppamó, þegar ég var á ferð um Vestfirðina seinasta mánudag. Ég hafði kynnt mér að það er enginn pípusveppur á Íslandi eitraður svo ég hélt mér mest við að týna þá. Þegar heim var komið tók ég til við að snyrta sveppina og flokka eftir því sem ég hafði list á að borða á meðan aðrir fengu að fjúka í ruslið. – Úr varð þetta fyrirtaks sveppapasta!

Það var svo í morgun, þegar ég leit út um gluggan á kontornum að ég sá, að ég hélt, fótbolta í Bókabúðargarðinum, sem hafði sjálfsagt verið sparkað þangað úr næsta garði. Þegar betur var að gáð var þó ekki um fótbolta að ræða heldur var þetta stærðarinnar sveppur. – Sá allra stærsti sem ég hef nokkurntíman séð.

Ég náði mér í Sveppahandbókina til að athuga hvaða ferlíki þetta væri og samkvæmt bókinni er þetta svokölluð Jötungíma, sem er stærsta sveppategund heims og er afar fátíð á Íslandi. Hún er svo fátíð að aðeins er vitað um 15 aðrar skráðar staðsetningar á Íslandi þar sem hún hefur fundist og er því Gamli Bókabúðargarðuinn sá sextándi sem vitað er um á öllu Íslandi.

Ég ákvað að taka Jötungímuna upp núna, þrátt fyrir forvitni um það hversu stór hún gæti orðið. En þar sem hún er bragðbest ný og verður óæt þegar hún dökknar var hún tekin inn í mælingu. Auðvitað var notast við gömlu Bókabúðarvogina og reyndist sveppurinn vera 1,55 kg. og ummál hans heilir 72cm.

Þá var bara næst á dagskrá að smakka á þessum stærðarsveppi sem fær góða bragðdóma í Sveppahandbók Bjarna, eða tvær stjörnur af þremur mögulegum. Fyrsta tilraun var að steikja sveppinn eins og steik á pönnu, upp úr olíu og smjöri ásamt smá salti og pipar. Öllu umstangi haldið í lágmarki til að hámarka bragð sveppsins. Sveppurinn smakkaðist líka svona ljómandi vel og það verður spennandi að prófa nýja uppskrif á morgun, ásamt því að reyna að vinna hann þannig að hann geymist og nýtist mér í matreiðslu út veturinn.

Það er ótrúlegt hvernig hlutirnir elta mann, ekki grunaði mig það þegar ég fór í mína fyrstu sveppamó í vikunni að nokkrum dögum síðar myndi ég finna einn sjaldgæfasta og stærsta svepp Íslands í bakgarðinum hjá mér. – Bókstaflega.

Nú er bara um að gera að fjárfesta í sveppahandbók og fara í sveppaleit, bragðbetra áhugamál er varla til og nú er heldur betur rétti tíminn.

Blóðrautt sólarlag og berjablá tunga í Önundarfirði.

Allar árstíðir Önundarfjarðar hafa sína sérstöðu og sjarma. Fallegir vetrardagar á Flateyri eru frábærir, Allt hvítt frá fjöru og upp á fjallstinda sem er ævintýraheimur fyrir skíða- og brettafólk og dásamlegur leikvöllur fyrir snjósleða. Dagarnir eru kannski stuttir en á móti verða stjörnuprýddar norðurljósanæturnar lengri.

Á vorin lifnar svo náttúran við. Sólin bræðir klakabrynjuna af nýjum græðlingum og fjörðurinn fyllist af fuglum í tilhugalífi áður en ungviðurinn skríður úr hreiðrum sínum.

Sumrin iða svo af lífi á Flateyri, þar sem sólin kemur upp um miðjar nætur og hefur varla fyrir því að setjast aftur næstu nótt, á meðan sitja heimamenn og sumarfuglar á kaffihúsum og ölstofum bæjarins á milli þess sem þeir næla sér í kíló af bókum, eða fisk í soðið á gömlum trébátum og kayakum.

Þrátt fyrir allt ofantalið er einfaldlega ekkert sem toppar haustið á Flateyri. Fallegt blóðrautt ágústkvöld með aðalbláber, sykur og rjóma í skál upp á Kambi. Önundarfjörðurinn liggur neflilega þannig að í ágúst, þá sest sólin í fjarðarkjaftinn og málar nýtt málverk fyrir okkur kvöld eftir kvöld, þar sem allir þeir rauðustu litir sem fyrirfinnast á litakortinu eru dregnir fram, litir sem flestir flateyringar hafa reynt að fanga á síma sína og myndavélar, en tekst þó sjaldnast, enda upplifunin alltaf margfallt sterkari á staðnum en í gegnum rafboð snertiskjáa.

Ekki nóg með að sólin liti himinn og haf rautt heldur færast haustlitirnir líka yfir gróður og land, þar sem runnar og berjaling fara að taka á sig rauða haustliti til merkis um það að nú sé kominn tími til að nýta þessa undaðslegu matarkistu sem fjörðurinn er. Þar sem ekki er þverfótað fyrir berjum, sveppum, blóðbergi og öðrum nytjajurtum sem vaxa villt um allan fjörð. Krækiber, Bláber, Aðalbláber og Aðalber, hvert sem litið er. Þvílíkur unaður og forréttindi.

Haustið er minn tími: Að sigla út í spegillslétt og blóðrautt sólarlag á kayak með berjabláa fingur og tungu er lífið. – Ef þig langar að deila þessari mögnuðu árstíð með okkur á Flateyri er hægt að finna fullt af flottum gistimöguleikum inn á www.VisitFlateyri.is

Myndirnar í færslunni tóku þeir Arjan og Eyþór.

Stórbrotin náttúra Svalvoga

Nú þegar allar bjartsýnisvonir um notalega haustferð til útlanda eru foknar út í Covid-rokið er tilvalið að taka landakortið upp á ný og reyna að finna mestu útnára og kjálka landsins, þar sem maður getur notið þess að vera einn í stórbrotinni náttúru, ekki með áhyggjur af neinu, hvorki af tveggja metra reglu eða fjöldatakmörkunum. Ferðalag þar sem sprittbrúsinn þarf ekki að vera þinn helsti ferðafélagi.

Besta leiðin til að finna einhvern stað þar sem þú getur verið fullkomlega einn er að finna stað þar sem enginn er að reyna að selja þér neitt og enginn græðir (eða tapar) á því að hafa þig þar. Það má auðvitað bara klæða sig í gönguskó og setja á sig bakpokann og labba upp á mitt hálendið, en fæst nennum við því, svona þegar haustið er farið að blása yfir landið með kulda og rigningu.

Því langar mig að segja ykkur frá einni mögnuðustu akstursleið sem til er á Íslandi. Það er Svalvogavegur, sem liggur á milli Dýrafjarðar og Arnarfjarðar á Vestfjörðum. Vegurinn tengir saman þessa tvo fallegu vestfirsku firði auk þess að liggja á milli tveggja merkra vestfirðinga, þá Gísla Súrsson í Haukadal og Jón Sigurðsson á Hrafnseyri.

Ég keyrði þessa leið í dag, byrjaði á Þingeyri og endaði þar, 4 klst. og 70 km. síðar sem telst nú varla mikill meðalhraði. Leiðin er bæði torfær og seinleg yfirferðar, enda enginn að drífa sig. Þetta snýst um að njóta ferðarinnar, félagsskaps, náttúru og dýralífs.

Það er ágætt að taka það fram að þetta er ekki leið sem þú ferð á bílaleigu-Yaris, en flestir jepplingar ættu að ráða við Svalvogahringinn. Það er þó í þessu eins og svo mörgu öðru að stærðin skiptir máli og því stærri sem bíllinn er, því betra.

Eins og sjá má eru vegirnir ansi háskalegir á köflum, en það er allt partur af þessari mögnuðu upplifun sem þessi leið er. Fyrir lofthrædda er sjálfsagt ágætt að fara “öfugan hring” það er að segja, að keyra frá Arnarfirði yfir í Dýrafjörð. – Þó kýs ég það alltaf sjálfur að keyra frá Dýrafirði yfir í Arnarfjörð.

Við fórum þessa leið í dag í grenjandi rigningu, sem er langt frá því að vera síðra en í glampandi sól, enda er það svo að þó Vestfirðirnir séu yndislegir á sólríkum degi þá eru þeir upp á sitt besta þegar þokuslæðurnar læðast niður fjöllin og regnið rífur upp allt litróf náttúrunnar. – Athugið þó, að það er hætta á skriðuföllum í mikilli vætutíð.

Víða á leiðinni má sjá magnaða kletta og bergmyndanir, bæði á landi og í sjó. – Það er í raun svo að maður er alltaf að sjá eitthvað nýtt og engin leið að komast yfir alla töfra svæðisins í einni ferð.

Þar sem Dýrafjörður og Arnarfjörður mætast má finna Svalvogavita. Þar stendur hann, einn og yfirgefinn fyrir opnu úthafi. Vitinn er opinn gestum og gangandi. Víðsvegar á leiðinni eru frábærir áningastaðir þar sem það er hægt að bregða sér út með gott nesti og heitt kakó og njóta þess að vera til, í margra kílómetra fjarlægð frá næsta byggða bóli.

Á leiðinni má sjá hvernig stærðar grjót, klettar og berg hafa fallið niður himinhá bergin, með skriðum eða snjóflóðum undanfarin árþúsundin og hlykkast vegurinn þar á milli. Maðurinn verður svo smár í þessu samhengi, bæði í tíma og rúmi. En inn á milli kletta og bjarga má víða finna vestfirsk aðalbláber, krærkiber og aðrar nytjajurtir sem gleðja svanga ferðalanga.

Það má sjá óteljandi fossa af öllum stærðum og gerðum á leiðinni, enda er það svo að það eru fleiri fossar en fólk á Vestfjörðum. (Þvílíkur drauma Covid-fjórðungur) Við vorum á ferð um Svalvogana í mikilli rigningu og því fossafjöldinn margfaldur og víða sem ár og lækir runnu yfir veginn, en engir það stórir að þeir heftu för okkar.

Það þarf aftur á móti að sæta sjávarföllum þegar Svalvogarnir eru keyrðir þar sem hluti vegarins er undir sjávarmáli. Hér má sjá okkur keyra bókstaflega undir berginu, þar sem sjórinn hefur sorfið sig inn í bjargið og fyrir vikið er hægt að keyra undir það að hluta og inn á milli kletta á öðrum stöðum, þar sem sjórinn hefur grafið sig í gegn.

Á leiðinni má sjá einstaka yfirgefin eyðibýli sem standa sem minnisvarðar um forna tíma og þá sem nutu þeirra forréttinda að fá að alast upp og lifa í nálægð við stórbrotin náttúruöflin á Vestfjörðum.

Þegar komið er að Hrafnseyri, fæðingarstað Jóns Sigurðssonar á aðeins eftir að fara Hrafnseyrarheiðina yfir til Þingeyrar. Þó flestir fagni opnun nýrra jarðgangna á milli Dýrafjarðar og Arnarfjarðar þá munu margir sakna þess magnað útsýni sem Hrafnsheiðin bíður upp á. Hvernig það má sjá veginn hlykkjast eins og snákur niður í Arnafjörð.

Það að keyra Svalvogana er hin fullkomna dagsferð, hvort sem það er á bíl, hjóli eða tveimur jafn fljótum. Þetta er einstök náttúruperla sem er temmilega aðgengileg, svo flestir geta notið hennar, án þess að vera að þvælast fyrir öðrum ferðamönnum.

Góða ferð!

Snjóflóðaganga um Flateyri

Saga Íslands er samofin snjóflóðum, sem eru mannskæðustu náttúruhamfarir landsins, en alls hafa um 700 manns látist í snjóflóðum á Íslandi, svo vitað sé. Þar af hafa 37 einstaklingar farist í snjóflóðum á Flateyri og í Önundarfirði. Snjóflóðasaga Flateyrar er þó ekki aðeins sorgarsaga heldur er hún einnig uppfull af björgunarafrekum og sigrum.

Flateyringar hafa boðið upp á daglega viðburði á Flateyri í allt sumar, sem hafa verið mjög vel sóttir. Meðal þeirra viðburða sem er boðið upp á í sumar eru snjóflóðagöngur um Flateyri, þar sem björgunarsveitarmenn ganga með fólk um Flateyri og fara yfir bæði snjóflóðið árið 1995 og snjóflóðin nú í vetur. Þannig gefst fólki einstakt tækfæri til að fræðast um snjóflóðin og björgunaraðgerðir frá fyrstu hendi.

Í göngunni fá gestir hennar að sjá áður óséðar ljósmyndir frá snjóflóðinu í janúar, þar sem hægt er að horfa í gegnum ljósmyndirnar á glærum plötum, sem setur ykkur í spor björgunarsveitarmannsins þegar hann tók myndirnar af atburðum og björgunaraðgerðum.

Snjóflóðagangan er farin öll miðvikudagskvöld kl. 20:00 í sumar og hefst gangan fyrir framan Gömlu Bókabúðina á Flateyri. Gangan tekur um eina og hálfa klukkustund og hentar öllum. Göngutollur er 2,000kr fyrir 16 ára og eldri.

Þá er einnig hægt að panta gönguna á öðrum tímum fyrir stóra sem smáa hópa í síma 8400600 eða í netfanginu jovinsson@gmail.com

Fullkominn dagur á Flateyri!

Það borgar sig að stefna á það að vera mætt til Flateyrar fyrir kl. 20:00 um kvöldið, þá er hægt að ná einum af þeim daglegu viðburðum sem Flateyringar bjóða upp á í sumar. Að viðburði loknum er hægt að koma sér fyrir á góðu gistiheimili, tjalda í skjólsælum trjálundi eða slappa af í heitum potti upp á hóteli eða í lúxusíbúð.

Eftir góðan nætursvefn er upplagt að taka góða morgungöngu, hvort sem það er út á Klofning, sem er magnaður klettur sem er klofinn í tvennt og gengur í sjófram eða að rölta hring um snjóflóðavarnirnar, sem gefur ykkur frábært útsýni yfir bæði Flateyri og allan fjörðinn eins og hann leggur sig, en það er leitun að jafn fallegum fjallarhing og í Önundarfirði.

Eftir göngutúrinn er upplagt að hressa sig við með yndislegu fiskisúpunni hennar Tobbu á Bryggjukaffi, en það er fátt sem toppar hana, nema ef ske kynni að vera ostakakan hennar sem fullkomnar hverja máltíð. Eftir að líkaminn hefur verið endurnærður með fisk úr firðinum er komið að því að næra sálina með því að kíkja í elstu upprunalegu verslun Íslands, hina sögufrægu Gömlu Bókabúð, þar sem bækur eru seldar eftir vigt.

Í Gömlu Bókabúðinni er líka hægt að ferðast aftur í tíman með því að heimsækja kaupmannsíbúðina, sem hefur staðið nánast óbreytt í 70 ár, eða síðan kaupmaðurinn Jón Eyjólfsson lést, árið 1950. Ekkert heimili á Íslandi hefur varðveist jafn vel frá fyrri hluta seinustu aldar og kaupmannsíbúðin í Gömlu Bókabúðinni.

Eftir bóka- (og súkkulaði) kaupin er kominn tími til að taka saman sundfötin og skella sér inn í Holt, sem er sólarströnd okkar vestfirðinga. Á leiðinni er upplagt að koma við hjá strompinum, sem hefur staðið þar teinréttur í rúma öld. Aðeins innar í firðinum er einnig Neðri Breiðadalur, en þar má kaupa þann besta harfisk sem framleiddur er á Íslandi.

Inn í Holti eru hvítar sandstrendur svo langt sem augað eygir, og glæsileg trébryggjan teygir sig langt út í sægrænan sjóinn. Eftir sjávarbusl og sólbað fer hungrið að segja til sín og þá er tvennt í stöðunni, annaðhvort að fara með Sigga Habb á sjóstöng og veiða eitthvað á grillið eða gæða sér á gómsætum hamborgurum og pizzum í Gunnukaffi.

Svo um kvöldið er upplagt að mæta á annan daglegan viðburð á Flateyri. Þá er eitthvað annað í boði en kvöldið áður, en þetta getur verið allt frá harðfiskkynningu til snjóflóðagöngu eða spurningakeppni á Vagninum.

Að lokum verður dagurinn fullkomnaður með blóðrauðri miðnætursól á Flateyri. Það þarf neflilega að hafa það í huga, þegar næturstaður er valinn á Vestfjörðum að kvölsólinni er misskipt á milli bæjarkjarna, og þar hefur Flateyri vinningin, þar sem sólin sest í fjarðarkjaftinum og engin fjöll sem skygga á kvöldsólina. – Bara glampandi sól frá morgni fram yfir miðnætti.

Það er einfaldlega ekkert sem toppar kvöldin á Flateyri, að ganga inn í sólarlagið, sigla á kayak eða bara taka með sér rauðvín og osta í fjöruna, slaka á og láta lognið leika við sig á meðan aftansól gullroða sveipar um jörð.

Barnvænir Vestfirðir

Vestfirðirnir eru paradís fyrir börn, fallegar strendur og fjölbreytt dýralíf hvert sem þú lítur og ávallt stutt í næstu sundlaug eða náttúrulaug. Þess fyrir utan er að finna magvíslega afþreyingu víðsvegar um Vestfirðina.

Ef við skoðum það sem er í boði og förum hringinn væri mitt fyrsta stopp á Sauðfjársetrinu á Ströndum þar sem börnin geta hlaupið um með heimalingunum á meðan þú getur slakað á og nært þig á þjóðlegum réttum kaffihússins.

Næsta stopp er Ævintýradalurinn Heydalur, en þar má finna vinaleg dýr af öllum tegundum, hægt að fara á hestbak, í veiði, á kayak eða henda sér ofan í náttúrulaugar eða suðræna innilaug.

Þegar Ísafjarðardjúpið er keyrt má oft sjá hvali á leik við veginn og upplagt að hafa börnin á útkíki fyrir þeim. Þar er einnig að finna selalátur við Hvítanes sem er staðsett á milli Hestfjarðar og Skötufjarðar. Þar má oft sjá tugi ef ekki hundruði seli að baða sig í sólinni.

Raggagaður í Súðavík er fjölskyldustaður Vestfjarða og algjört skyldustopp fyrir börnin, en þar er að finna einn glæsilegast leikvöll landsins sem Bogga í Súðavík hefur byggt upp af miklum myndarskap til minngar um son sinn sem lést í bílslysi. Í Súðavík er einnig að finna Melrakkasetrið þar sem börnin geta heilsað upp á Rebba, einkennisdýr Vestfjarða.

Í Bolungarvík er skemmtilegt náttúrugripasafn þar sem má sjá eitt stærsta fuglasafn Íslands, kynnast Krumma ásamt því að kíkja á Ísbjörninn sem bolvískir sjómenn komu með á land fyrir nokkrum árum. Í Bolungarvík er einnig skemmtileg sundlaug með góðu útisvæði, heitum pottum og rennibrautum.

Í Gömlu Bókabúðinni á Flateyri eru barnbækur, sem og allar aðrar bækur seldar eftir vigt sem börnin hafa gaman að því að vigta á gamalli vog, en það þarf töluverða lagni við að finna réttu lóðin til að allt gangi upp. Kjörinn staður til að finna nýja bók eða gömul hasablöð til að hafa í bílnum á ferðalaginu. Innar í Önundarfirði er svo að finna Holtssand og Holtsbryggju sem er líkegast ein skemmtilegasta sólarstrandaströnd Íslands. – Það nennir enginn í Nauthólfsvík eftir að hafa eytt sólríkum degi við Holtsbryggju.

Áður en haldið er í Dýrafjörðinn er upplagt að vera búin að gera nestiskörfuna klára, til að fara í alvöru lautarferð í Skrúð, fyrsta skrúðgarð Íslands. – Garðinn sem allir aðrir skrúðgarðar landsins heita í höfuðið á. – Það er einfaldlega ekkert sem toppar Skrúð á fallegum degi með heitt kakó og kruðerí.

Áfram liggur leiðin um fegurð Vestfjarða, upp og niður magnaða fjallvegi með útsýni í allar áttir og fossa niður allar hlíðar. Loks komið þið að Bíldudal sem er heimili hins ógurlega skrímslaseturs. Það er eitthvað sem engin börn meiga missa af, en þar er virkilega glæsileg og skemmtileg sýning um skrímslin í Arnarfirði.

Fyrir utan þá áfangastaði sem ég hef talið upp hér að ofan er allstaðar hægt að komast í návigi við náttúru og dýralíf, alltaf stutt í næstu fjöru og ný ævintýri. Í þessari upptalningu hef ég lítið fjallað um góða veitingastaði eða aðrar náttúruperlur sem munu verða á vegi ykkar. Það má nálgast góða og ítarlegri ferðalýsingu um Vestfirðina í færslunni Fimm daga ferðalag um Vestfirði, en þar fjallaði ég lítið um litla fólkið og hvað sé gaman að gera með þeim á Vestfjörðum. – Úr því hefur nú verið bætt, þótt ég sé alveg örugglega að gleyma einhverjum skemmtilegum og barnvænum stöðum á Vestfjörðum, enda af nægu að taka.

Myndirnar voru allar fengnar að láni frá þeim ferðaþjónum sem ég minnist á í færslunni.

Fjör á Flateyri!

Ferðaþjónar á Flateyri hafa tekið sig saman og bjóða nú upp á daglega viðburði í allt sumar. Dagskráin byrjaði fyrir viku síðan og alls mættu rúmlega 60 gestir á viðburði vikunar, sem voru jafn fjölbreyttir og þeir voru margir. Á morgun mánudag heldur dagskráin svo áfram af fullum krafti.

Alla Mánudaga kl. 20:00 í sumar er boðið upp á harðfisk kynningu hjá Breiðadalsfiski í Breiðadal í samstarfi við Kaffi Sól. Þar eru gestir leiddir um leyndardómana á bakvið framleiðslu á besta harðfiski Íslands og auðvitað fylgir harðfisksmakk með ásamt óvæntum glaðningi. Verð fyrir fullorðna er 2,000 kr en 1,000 kr fyrir börn.

Alla Þriðjudaga kl. 20:00 í sumar verður boðið upp á leiðsögn um Gömlu Bókabúðina á Flateyri þar sem þú getur fræðst um elstu upprunalegu verslun Íslands og fengist að kynnast fjölskyldunni í gegnum langafason stofnanda verslunarinnar. Hvernig tengjast Ásgeir Ásgeirsson, forseti Íslands, Matthías Jochumsson og fyrsti sjúklingurinn sem var lagður inn á Klepp sögu Gömlu Bókabúðarinnar á Flateyri? Þeim spurningum og fleirum verður svarað öll þriðjudagskvöld í sumar. Aðgangur er ókeypis.

Alla Miðvikudaga kl. 20:00 í sumar mun björgunarsveitarmaður sem tók þátt í björgunaraðgerðum í snjóflóðinu 1995 eða í janúar 2020 leiða fólk um þorpið í snjóflóðagöngu þar sem verður farið yfir atburðina, björgun, sigra og sorgir. Áhrifarík en um leið fróðleg ganga um mannskæðustu nátttúruhamfarir Íslands. – Gangan hefst fyrir framan Bókabúðina á Flateyri og kostar 2,000 kr fyrir fullorðna.

Alla Fimmtudaga kl. 20:00 í sumar mun skákmaðurinn Siggi Habb draga fram taflborð sín á Bryggjukaffi og tefla við heimamenn og aðra gesti. Sagt er að menn hafi ekki komið til Flateyrar nema að hafa tekið í eina skák við Sigga Habb. Hér eru allir velkomnir, jafnt byrjendur og stórmeistarar. Auðvitað verður líka heitt á könnunni og fiskisúpan er á sínu stað. Þátttaka er ókeypis.

Alla Föstudaga kl. 20:00 í sumar verður slegið upp BarSvari á Vagninum þar sem heimamenn skora á aðkomufólk í skemmtilegum spurningaleik. Kaldur á krana og hið margrómaða eldhús Vagnsins er að sjálfsögðu opið. Þátttaka er ókeypis.

Alla Laugardaga kl. 20:00 í sumar munu listamenn stíga á hið sögufræga svið Vagnsins. Það er varla til sá listamaður sem ekki hefur sungið lag, flutt ljóð eða farið með gjörning eða gamanmál á þessum sögufræga skemmtistað. Von er á lifandi tónlist og allskonar fjöri á Vagninum í allt sumar. Stundum kostar inn, en oftast verður þó aðgangur ókeypis.

Alla Sunnudaga kl. 15:00 í sumar verður boðið upp á önfirskan ljóðlestur í Gömlu Bókabúðinni. Þar fá gestir að kynnast ljóðum um Önundarfjörðinn eða ljóð frá héraðsskáldunum, sem voru ýmist þekkt fyrir að þéra kindurnar sínar eða semja háðvísur um nágrannan. Það verður heitt á könnunni og aðgangur er ókeypis.

Allar frekari upplýsingar um Fjör á Flateyri verkefnið og aðrar ganglegar upplýsingar fyrir ferðafólk á Flateyri má nálgast á www.VisitFlateyri.is – Sjáumst á Flateyri í sumar!

Handbók fyrir búðarfólk

Þegar viðskiptavinum fækkar stórlega vegna Covid ferðatakmarkana gefst nægur tími til að dunda sér í öðru og skoða þær fjölmörgu bækur sem við höfum til sölu hjá okkur. Við vorum að hugsa um að nota dauðu stundirnar í sumar til að sýna ykkur nokkrar af þeim einstöku bókum sem við höfum til sölu hjá okkur á kílóverði. Mögulega fáið þið einnig að sjá eitthvað fleira skemmtilegt frá Gömlu Bókabúðinni á Flateyri. – En Best er samt alltaf að heimsækja verslunina, það jafnast ekkert á við það!

Stofutónleikar og Sögusýning

Undanfarna daga hefur Gamla Bókabúðin á Flateyri staðið fyrir tveimur skemmtilegum viðburðum á Flateyri. Á laugardaginn kom rithöfundurinn Auður Jónsdóttir til Flateyrar og var með sýningu sína, Auður og Auður, sem hún byggir á bók sinni Ósjálfrátt, sem gerist að miklum hluta á Flateyri þegar Auður bjó þar og vann í fiski. Var sýningin því sett upp í gamalli fiskvinnslu á Flateyri, sem setti sýninguna í skemmtilega og viðeigandi umgjörð sem gladdi áhorfendur. Hátt í hundrað manns mættu á sýninguna og rann allur aðgangseyrir óskiptur til Björgunarsveitarinnar Sæbjargar á Flateyri.

Þriðjudagskvöldið var svo söngvaskáldið Svavar Knútur með stofutónleika í Kaupmannsíbúðinni í Gömlu Bókabúðinni. 30 manns mættu á þá tónleika og var uppselt. Tónleikar Svavars Knúts voru æðislegir, þar sem hann spilaði frumsamin lög í bland við önnur lög ásamt því að lesa ljóð og fara með gamanmál, eins og honum einum er lagið. Það er sjálfsagt ekki hægt að komast í jafn mikla nálægð við listamennina eins og á stofutónleikum í Gömlu Bókabúðinni og umgjörðin algjörlega einstök á Íslandi.

Til stóð að fagna 100 ára bóksölu verslunarinnar með tónleikum, upplestrum og öðrum viðbuðrum allt árið 2020, en vegna Covid hefur sú dagskrá riðlast töluvert, en við erum núna á fullu að bóka og skipuleggja næstu viðburði og því tökum við glöð við öllum ábendingum eða óskum um að fá að koma fram og flytja lög, vera með upplestur eða aðra viðburði í Bókabúðinni í ár.

Ef þú ert listamaður á ferð um landið, heyrðu þá endilega í okkur og við gerum eitthvað skemmtileg saman, hvort sem það er í Bókabúðinni eða á öðrum óhefðbundnum stöðum í Önundarfirði.

Hafðu samband: Netfang: jovinsson@gmail.com eða sími: 8400600