Snjóflóðaganga um Flateyri

Saga Íslands er samofin snjóflóðum, sem eru mannskæðustu náttúruhamfarir landsins, en alls hafa um 700 manns látist í snjóflóðum á Íslandi, svo vitað sé. Þar af hafa 37 einstaklingar farist í snjóflóðum á Flateyri og í Önundarfirði. Snjóflóðasaga Flateyrar er þó ekki aðeins sorgarsaga heldur er hún einnig uppfull af björgunarafrekum og sigrum.

Flateyringar hafa boðið upp á daglega viðburði á Flateyri í allt sumar, sem hafa verið mjög vel sóttir. Meðal þeirra viðburða sem er boðið upp á í sumar eru snjóflóðagöngur um Flateyri, þar sem björgunarsveitarmenn ganga með fólk um Flateyri og fara yfir bæði snjóflóðið árið 1995 og snjóflóðin nú í vetur. Þannig gefst fólki einstakt tækfæri til að fræðast um snjóflóðin og björgunaraðgerðir frá fyrstu hendi.

Í göngunni fá gestir hennar að sjá áður óséðar ljósmyndir frá snjóflóðinu í janúar, þar sem hægt er að horfa í gegnum ljósmyndirnar á glærum plötum, sem setur ykkur í spor björgunarsveitarmannsins þegar hann tók myndirnar af atburðum og björgunaraðgerðum.

Snjóflóðagangan er farin öll miðvikudagskvöld kl. 20:00 í sumar og hefst gangan fyrir framan Gömlu Bókabúðina á Flateyri. Gangan tekur um eina og hálfa klukkustund og hentar öllum. Göngutollur er 2,000kr fyrir 16 ára og eldri.

Þá er einnig hægt að panta gönguna á öðrum tímum fyrir stóra sem smáa hópa í síma 8400600 eða í netfanginu jovinsson@gmail.com

Fullkominn dagur á Flateyri!

Það borgar sig að stefna á það að vera mætt til Flateyrar fyrir kl. 20:00 um kvöldið, þá er hægt að ná einum af þeim daglegu viðburðum sem Flateyringar bjóða upp á í sumar. Að viðburði loknum er hægt að koma sér fyrir á góðu gistiheimili, tjalda í skjólsælum trjálundi eða slappa af í heitum potti upp á hóteli eða í lúxusíbúð.

Eftir góðan nætursvefn er upplagt að taka góða morgungöngu, hvort sem það er út á Klofning, sem er magnaður klettur sem er klofinn í tvennt og gengur í sjófram eða að rölta hring um snjóflóðavarnirnar, sem gefur ykkur frábært útsýni yfir bæði Flateyri og allan fjörðinn eins og hann leggur sig, en það er leitun að jafn fallegum fjallarhing og í Önundarfirði.

Eftir göngutúrinn er upplagt að hressa sig við með yndislegu fiskisúpunni hennar Tobbu á Bryggjukaffi, en það er fátt sem toppar hana, nema ef ske kynni að vera ostakakan hennar sem fullkomnar hverja máltíð. Eftir að líkaminn hefur verið endurnærður með fisk úr firðinum er komið að því að næra sálina með því að kíkja í elstu upprunalegu verslun Íslands, hina sögufrægu Gömlu Bókabúð, þar sem bækur eru seldar eftir vigt.

Í Gömlu Bókabúðinni er líka hægt að ferðast aftur í tíman með því að heimsækja kaupmannsíbúðina, sem hefur staðið nánast óbreytt í 70 ár, eða síðan kaupmaðurinn Jón Eyjólfsson lést, árið 1950. Ekkert heimili á Íslandi hefur varðveist jafn vel frá fyrri hluta seinustu aldar og kaupmannsíbúðin í Gömlu Bókabúðinni.

Eftir bóka- (og súkkulaði) kaupin er kominn tími til að taka saman sundfötin og skella sér inn í Holt, sem er sólarströnd okkar vestfirðinga. Á leiðinni er upplagt að koma við hjá strompinum, sem hefur staðið þar teinréttur í rúma öld. Aðeins innar í firðinum er einnig Neðri Breiðadalur, en þar má kaupa þann besta harfisk sem framleiddur er á Íslandi.

Inn í Holti eru hvítar sandstrendur svo langt sem augað eygir, og glæsileg trébryggjan teygir sig langt út í sægrænan sjóinn. Eftir sjávarbusl og sólbað fer hungrið að segja til sín og þá er tvennt í stöðunni, annaðhvort að fara með Sigga Habb á sjóstöng og veiða eitthvað á grillið eða gæða sér á gómsætum hamborgurum og pizzum í Gunnukaffi.

Svo um kvöldið er upplagt að mæta á annan daglegan viðburð á Flateyri. Þá er eitthvað annað í boði en kvöldið áður, en þetta getur verið allt frá harðfiskkynningu til snjóflóðagöngu eða spurningakeppni á Vagninum.

Að lokum verður dagurinn fullkomnaður með blóðrauðri miðnætursól á Flateyri. Það þarf neflilega að hafa það í huga, þegar næturstaður er valinn á Vestfjörðum að kvölsólinni er misskipt á milli bæjarkjarna, og þar hefur Flateyri vinningin, þar sem sólin sest í fjarðarkjaftinum og engin fjöll sem skygga á kvöldsólina. – Bara glampandi sól frá morgni fram yfir miðnætti.

Það er einfaldlega ekkert sem toppar kvöldin á Flateyri, að ganga inn í sólarlagið, sigla á kayak eða bara taka með sér rauðvín og osta í fjöruna, slaka á og láta lognið leika við sig á meðan aftansól gullroða sveipar um jörð.

Barnvænir Vestfirðir

Vestfirðirnir eru paradís fyrir börn, fallegar strendur og fjölbreytt dýralíf hvert sem þú lítur og ávallt stutt í næstu sundlaug eða náttúrulaug. Þess fyrir utan er að finna magvíslega afþreyingu víðsvegar um Vestfirðina.

Ef við skoðum það sem er í boði og förum hringinn væri mitt fyrsta stopp á Sauðfjársetrinu á Ströndum þar sem börnin geta hlaupið um með heimalingunum á meðan þú getur slakað á og nært þig á þjóðlegum réttum kaffihússins.

Næsta stopp er Ævintýradalurinn Heydalur, en þar má finna vinaleg dýr af öllum tegundum, hægt að fara á hestbak, í veiði, á kayak eða henda sér ofan í náttúrulaugar eða suðræna innilaug.

Þegar Ísafjarðardjúpið er keyrt má oft sjá hvali á leik við veginn og upplagt að hafa börnin á útkíki fyrir þeim. Þar er einnig að finna selalátur við Hvítanes sem er staðsett á milli Hestfjarðar og Skötufjarðar. Þar má oft sjá tugi ef ekki hundruði seli að baða sig í sólinni.

Raggagaður í Súðavík er fjölskyldustaður Vestfjarða og algjört skyldustopp fyrir börnin, en þar er að finna einn glæsilegast leikvöll landsins sem Bogga í Súðavík hefur byggt upp af miklum myndarskap til minngar um son sinn sem lést í bílslysi. Í Súðavík er einnig að finna Melrakkasetrið þar sem börnin geta heilsað upp á Rebba, einkennisdýr Vestfjarða.

Í Bolungarvík er skemmtilegt náttúrugripasafn þar sem má sjá eitt stærsta fuglasafn Íslands, kynnast Krumma ásamt því að kíkja á Ísbjörninn sem bolvískir sjómenn komu með á land fyrir nokkrum árum. Í Bolungarvík er einnig skemmtileg sundlaug með góðu útisvæði, heitum pottum og rennibrautum.

Í Gömlu Bókabúðinni á Flateyri eru barnbækur, sem og allar aðrar bækur seldar eftir vigt sem börnin hafa gaman að því að vigta á gamalli vog, en það þarf töluverða lagni við að finna réttu lóðin til að allt gangi upp. Kjörinn staður til að finna nýja bók eða gömul hasablöð til að hafa í bílnum á ferðalaginu. Innar í Önundarfirði er svo að finna Holtssand og Holtsbryggju sem er líkegast ein skemmtilegasta sólarstrandaströnd Íslands. – Það nennir enginn í Nauthólfsvík eftir að hafa eytt sólríkum degi við Holtsbryggju.

Áður en haldið er í Dýrafjörðinn er upplagt að vera búin að gera nestiskörfuna klára, til að fara í alvöru lautarferð í Skrúð, fyrsta skrúðgarð Íslands. – Garðinn sem allir aðrir skrúðgarðar landsins heita í höfuðið á. – Það er einfaldlega ekkert sem toppar Skrúð á fallegum degi með heitt kakó og kruðerí.

Áfram liggur leiðin um fegurð Vestfjarða, upp og niður magnaða fjallvegi með útsýni í allar áttir og fossa niður allar hlíðar. Loks komið þið að Bíldudal sem er heimili hins ógurlega skrímslaseturs. Það er eitthvað sem engin börn meiga missa af, en þar er virkilega glæsileg og skemmtileg sýning um skrímslin í Arnarfirði.

Fyrir utan þá áfangastaði sem ég hef talið upp hér að ofan er allstaðar hægt að komast í návigi við náttúru og dýralíf, alltaf stutt í næstu fjöru og ný ævintýri. Í þessari upptalningu hef ég lítið fjallað um góða veitingastaði eða aðrar náttúruperlur sem munu verða á vegi ykkar. Það má nálgast góða og ítarlegri ferðalýsingu um Vestfirðina í færslunni Fimm daga ferðalag um Vestfirði, en þar fjallaði ég lítið um litla fólkið og hvað sé gaman að gera með þeim á Vestfjörðum. – Úr því hefur nú verið bætt, þótt ég sé alveg örugglega að gleyma einhverjum skemmtilegum og barnvænum stöðum á Vestfjörðum, enda af nægu að taka.

Myndirnar voru allar fengnar að láni frá þeim ferðaþjónum sem ég minnist á í færslunni.

Fjör á Flateyri!

Ferðaþjónar á Flateyri hafa tekið sig saman og bjóða nú upp á daglega viðburði í allt sumar. Dagskráin byrjaði fyrir viku síðan og alls mættu rúmlega 60 gestir á viðburði vikunar, sem voru jafn fjölbreyttir og þeir voru margir. Á morgun mánudag heldur dagskráin svo áfram af fullum krafti.

Alla Mánudaga kl. 20:00 í sumar er boðið upp á harðfisk kynningu hjá Breiðadalsfiski í Breiðadal í samstarfi við Kaffi Sól. Þar eru gestir leiddir um leyndardómana á bakvið framleiðslu á besta harðfiski Íslands og auðvitað fylgir harðfisksmakk með ásamt óvæntum glaðningi. Verð fyrir fullorðna er 2,000 kr en 1,000 kr fyrir börn.

Alla Þriðjudaga kl. 20:00 í sumar verður boðið upp á leiðsögn um Gömlu Bókabúðina á Flateyri þar sem þú getur fræðst um elstu upprunalegu verslun Íslands og fengist að kynnast fjölskyldunni í gegnum langafason stofnanda verslunarinnar. Hvernig tengjast Ásgeir Ásgeirsson, forseti Íslands, Matthías Jochumsson og fyrsti sjúklingurinn sem var lagður inn á Klepp sögu Gömlu Bókabúðarinnar á Flateyri? Þeim spurningum og fleirum verður svarað öll þriðjudagskvöld í sumar. Aðgangur er ókeypis.

Alla Miðvikudaga kl. 20:00 í sumar mun björgunarsveitarmaður sem tók þátt í björgunaraðgerðum í snjóflóðinu 1995 eða í janúar 2020 leiða fólk um þorpið í snjóflóðagöngu þar sem verður farið yfir atburðina, björgun, sigra og sorgir. Áhrifarík en um leið fróðleg ganga um mannskæðustu nátttúruhamfarir Íslands. – Gangan hefst fyrir framan Bókabúðina á Flateyri og kostar 2,000 kr fyrir fullorðna.

Alla Fimmtudaga kl. 20:00 í sumar mun skákmaðurinn Siggi Habb draga fram taflborð sín á Bryggjukaffi og tefla við heimamenn og aðra gesti. Sagt er að menn hafi ekki komið til Flateyrar nema að hafa tekið í eina skák við Sigga Habb. Hér eru allir velkomnir, jafnt byrjendur og stórmeistarar. Auðvitað verður líka heitt á könnunni og fiskisúpan er á sínu stað. Þátttaka er ókeypis.

Alla Föstudaga kl. 20:00 í sumar verður slegið upp BarSvari á Vagninum þar sem heimamenn skora á aðkomufólk í skemmtilegum spurningaleik. Kaldur á krana og hið margrómaða eldhús Vagnsins er að sjálfsögðu opið. Þátttaka er ókeypis.

Alla Laugardaga kl. 20:00 í sumar munu listamenn stíga á hið sögufræga svið Vagnsins. Það er varla til sá listamaður sem ekki hefur sungið lag, flutt ljóð eða farið með gjörning eða gamanmál á þessum sögufræga skemmtistað. Von er á lifandi tónlist og allskonar fjöri á Vagninum í allt sumar. Stundum kostar inn, en oftast verður þó aðgangur ókeypis.

Alla Sunnudaga kl. 15:00 í sumar verður boðið upp á önfirskan ljóðlestur í Gömlu Bókabúðinni. Þar fá gestir að kynnast ljóðum um Önundarfjörðinn eða ljóð frá héraðsskáldunum, sem voru ýmist þekkt fyrir að þéra kindurnar sínar eða semja háðvísur um nágrannan. Það verður heitt á könnunni og aðgangur er ókeypis.

Allar frekari upplýsingar um Fjör á Flateyri verkefnið og aðrar ganglegar upplýsingar fyrir ferðafólk á Flateyri má nálgast á www.VisitFlateyri.is – Sjáumst á Flateyri í sumar!

Handbók fyrir búðarfólk

Þegar viðskiptavinum fækkar stórlega vegna Covid ferðatakmarkana gefst nægur tími til að dunda sér í öðru og skoða þær fjölmörgu bækur sem við höfum til sölu hjá okkur. Við vorum að hugsa um að nota dauðu stundirnar í sumar til að sýna ykkur nokkrar af þeim einstöku bókum sem við höfum til sölu hjá okkur á kílóverði. Mögulega fáið þið einnig að sjá eitthvað fleira skemmtilegt frá Gömlu Bókabúðinni á Flateyri. – En Best er samt alltaf að heimsækja verslunina, það jafnast ekkert á við það!

Stofutónleikar og Sögusýning

Undanfarna daga hefur Gamla Bókabúðin á Flateyri staðið fyrir tveimur skemmtilegum viðburðum á Flateyri. Á laugardaginn kom rithöfundurinn Auður Jónsdóttir til Flateyrar og var með sýningu sína, Auður og Auður, sem hún byggir á bók sinni Ósjálfrátt, sem gerist að miklum hluta á Flateyri þegar Auður bjó þar og vann í fiski. Var sýningin því sett upp í gamalli fiskvinnslu á Flateyri, sem setti sýninguna í skemmtilega og viðeigandi umgjörð sem gladdi áhorfendur. Hátt í hundrað manns mættu á sýninguna og rann allur aðgangseyrir óskiptur til Björgunarsveitarinnar Sæbjargar á Flateyri.

Þriðjudagskvöldið var svo söngvaskáldið Svavar Knútur með stofutónleika í Kaupmannsíbúðinni í Gömlu Bókabúðinni. 30 manns mættu á þá tónleika og var uppselt. Tónleikar Svavars Knúts voru æðislegir, þar sem hann spilaði frumsamin lög í bland við önnur lög ásamt því að lesa ljóð og fara með gamanmál, eins og honum einum er lagið. Það er sjálfsagt ekki hægt að komast í jafn mikla nálægð við listamennina eins og á stofutónleikum í Gömlu Bókabúðinni og umgjörðin algjörlega einstök á Íslandi.

Til stóð að fagna 100 ára bóksölu verslunarinnar með tónleikum, upplestrum og öðrum viðbuðrum allt árið 2020, en vegna Covid hefur sú dagskrá riðlast töluvert, en við erum núna á fullu að bóka og skipuleggja næstu viðburði og því tökum við glöð við öllum ábendingum eða óskum um að fá að koma fram og flytja lög, vera með upplestur eða aðra viðburði í Bókabúðinni í ár.

Ef þú ert listamaður á ferð um landið, heyrðu þá endilega í okkur og við gerum eitthvað skemmtileg saman, hvort sem það er í Bókabúðinni eða á öðrum óhefðbundnum stöðum í Önundarfirði.

Hafðu samband: Netfang: jovinsson@gmail.com eða sími: 8400600

Fimm daga ferðalag um Vestfirði

Undanfarin ár hefur verslunarstjóri Bókabúðarinnar farið nokkra hringi um Vestfirðina að dreifa Vestfjarðarkorti sem hann gefur út árlega. Hann… já, eða ég, ákvað að setja niður á blað mína uppáhalds staði á Vestfjörðunum, þar sem ég nýt þess að slaka á, borða góðan mat, flakka á milli náttúrulauga og njóta stórkostlegrar náttúru Vestfjarða.

Það væri auðvelt að eyða fleiri vikum á ferð um Vestfirðina, en í þetta sinn ætla ég að miða við fimm daga ferð sem hefst og endar í Reykjavík. Fyrir vikið þarf ég að sleppa mörgum æðislegum stöðum úr ferðalýsingunni, og sjálfsagt er til nægilegt efni til að skrifa upp aðra gjörólíka og frábæra fimm daga ferð um Vestfirði. – En þetta er minn klassíski ferðahringur sem ég fer með mína gesti í þegar mig langar að sýna þeim mína uppáhaldsstaði í akstursleið.

DAGUR 1

Fyrsta skyldustoppið í þessum Vestfjarðarhring er reyndar ekki á Vestfjörðum, en það er Rjómabúið á Erpstöðum, sem selja besta ís Íslands, gerður úr Vestfirskum aðalbláberjum. Þar er einnig óhætt að mæla með gómsætu skyrkonfekti sem hægt er að japla á, á meðan maður fylgist með lífinu í sveitinni.

Leiðin liggur næst á Hólmavík þar sem er tilvalið að fá sér göldrótta súpu á Galdrasafninu samhliða því að kynna sér vestfirskar nábuxur og aðra áhrifamikla galdra. Þegar Galdrasafnið er yfirgefið skal setja Sigur Rós í botn og keyra af stað inn á hinar töfrandi Strandir. Hrikaleg náttúra og klettar í sjófram draga fram hið sanna Ísland. Hvergi á Íslandi skilur maður smæð mannsins eins vel og umvafinn veðurbarinni náttúru svæðisins. Fossar frussast niður allar hlíðar og það er einmitt undir einum slíkum fossi sem að kyngimagnaðasta hótel Íslands er, Hótel Djúpavík! Í Dúpuvík má finna allt til að næra bæði líkama og sál, æðislegur veitingastaður, mögnuð náttúra og einstakar listasýningar í gömlu síldarvinnslustöðinni sem fór í eyði fyrir tæpum 70 árum, en var á sínum tíma langstærsta steinsteypubygging Íslands.

Ef þú hélst að þú værir kominn á enda veraldar í Djúpuvík, þá var það ekki svo, því ef þú keyrir örlítið lengra munt þú finna Krossneslaug sem er án efa einhver stórbrotnasta sundlaug Íslands. Eins og það er nú dásamlegt að svamla í henni í blóðrauðu sólarlagi þá jafnast ekkert við þá upplifun að liggja í heitu vatninu þegar úfið atlandshafið skellur úthafsöldum sínum á kletta og grjót í fjöruborðinu við sundlaugina.

DAGUR 2

Frá Ströndum liggur leiðinn yfir Steingrímsfjarðarheiði og inn í Djúp. Þótt það sé freistandi þjóta í gegnum Djúpið á hraðferð er það vel þess virði að beygja inn Mjóafjörðinn. Þar má meðal annars finna Hörgshlíðarlaug þar sem óðar Instagramhetjur keppast um að mynda sig í. Og þar stutt frá er ævintýraheimurinn í Heydal, þar sem finna má finna fjölbreytta náttúrupotta og suðræna innisundlaug. Það væri í raun auðvelt að skrifa heila fimm daga ferðasögu, bara um Heydalinn því þar má fara á Hestum um fjöll og firnindi eða flakka um fjörðinn á kayak. Þá er ekki óalgengt að bæði Refir og Uglur heimsæki staðinn, en þar eru fyrir bæði vinalegir hundar og talandi páfagaukur sem bíður alla velkomna á milli þess sem hann stríðir fólki með því að leika fjölbreyttar símhringingar.

Mér er það minnistætt þegar ég fékk mér eitt sinn að borða Í Heydal. Þá hafði ég pantað mér bleikju en þegar þjónninn kom inn í eldhúsið heyrði ég kokkinn segja að bleikjan væri búinn. Bauðst þá þjónninn til þess að stökkva niður í vatn og ná í eina Bleikju. Tíu mínútum síðar var ég kominn með einhverja þá bestu bleikju sem ég hef smakkað á diskinn fyrir framan mig.

Örlítið utar í Djúpinu má finna Litlabæ, þar sem er dásamlegt að setjast niður og borða vöfflur með útsýni yfir fjörðinn, eða þá inn í Litlabæ, sem er eins og nafnið gefur til kynna, mjög lítill, þrátt fyrir að þar hafi búið tæplega 30 manns á seinustu öld. frá Litlabæ er frábært útsýni yfir Skötufjörðinn, sem er vinsæll viðkomustaður hvala, eins og reyndar Djúpið allt, enda er það nefnt matarkista Íslands. Í næsta nágreni við Litlabæ er Hvítanes þar sem iðulega má sjá seli sólbaða sig í tuga ef ekki hundraða tali á klettum og steinum í fjörunni.

Á Ísafirði er eina brugghús Vestfjarðar, Dokkan. Þar er tilvalið að setjast niður eftir langan dag og smakka á því besta sem vestfirska vatnið hefur að bjóða upp á í áfengu formi. Tilvalinn fordrykkur fyrir Tjöruhúsið, hafir þú ekki þegar verið búinn að borða á þig gat þann daginn. Það þarf ekki að hafa mörg orð um þann magnaða veitingastað, en hvað sem þú gerir, þá verður þú að smakka Gellurnar hans Magga, þessar stökku með mjúku fyllingunni!

DAGUR 3

Gott er að byrja daginn á kringlu með skinku og osti í Gamla Bakaríinu, slíkt er fyrir löngu orðinn þjóðarréttur Ísfirðinga, ekki að ástæðu lausu, enda fá bakarí sem toppa það Gamla á Ísafirði.

Frá Ísafirði liggur leiðin upp á Bolafjall í Bolungarvík, sem er magnaður viðkomustaður, hvort sem þú vilt freista þess að sjá til Grænlands á heiðskýrum degi eða keyra upp í þá svörtustu þoku sem þú munt upplifa. Þá er stutt stopp í Ósvör aldrei vond hugmynd.

Eftir ferðalag í gegnum tvenn göng frá Bolungarvík yfir í hinn fagra fjallahring Önundarfjarðar er tilvalið að keyra út á Flateyri. Þar er Gamla Bókabúðin auðvitað skyldustopp, elsta upprunalega verslun Íslands. Að stíga þangað inn er eins og að ferðast aftur í tíman. Hvergi á Íslandi hefur verslun og íbúð varðveist jafn vel eins og í Gömlu Bókabúðinni, þar sem gestir geta keypt bækur í kílóavís af langafasyni stofnanda verslunarinnar.

Besta leiðin til að kynnast Önundarfirði er að sigla um hann á Kayak. Þar sem hvítur sandurinn krafsar sig upp úr sægrænum sjónum og fuglar allt um kring. Holtsbyrggja er fyrir löngu orðin þekkt fyrir sína suðrænu sanda, þar sem sundgarpar stinga sér til sunds á meðan krakkarnir busla í sjónum og byggja kastala. Holtssandur er hin sannkallaða sólarströnd Íslands.

Það leiðist svo engum á kvöldin á Flateyri, þar sem ferðaþjónar á svæðinu hafa tekið sig saman um að vera með daglega viðburði í allt sumar, allt frá harðfiskverkun, fræðslugöngur um snjóflóðin og tónleika á hinum sögufræga Vagni. Nánari upplýsingar um daglega viðburði má nálgast á síðunni VisitFlateyri.is

DAGUR 4

Nú fer hver að verða síðastur að fara Hrafnseyrarheiðina áður en göngin á milli Dýrafjarðar og Arnafjarðar opna. Þátt fyrir að vera erfiður vegatálmi á veturna er leiðin ein sú fallegast sem þú munt keyra á ferð þinni um Vestfirði, þar sem Arnarfjörðurinn blasir við þér og vegurinn hlykkjast niður fjallshlíðina. Í botni Arnarfjarðar býr konungur Vestfjarða, sjálfur Dynjandi. Hann er mikilfenglegur úr fjarska en það jafnast ekkert á við það að ganga göngustíginn upp á enda og standa beint undir þessum fegursta fossi Íslands!

Frá Dynjanda liggur leiðin í Reykjafjörð, þar sem hægt er að stinga sér til sunds eða leggjast í sandbotn náttúrulaugarinna sem er þar fyrir ofan. Að sundferð lokinni er komið að Vegamótum á Bíludal, sem er einfaldlega besti hamborgarastaður landsins. Það er leitun að jafn vinalegri sjoppu á landsbyggðinni sem bíður upp á jafn metnaðarfullan mat og á Vegamótum.

Á Bíldudal má finna yndislegt fólk, en þó er hlutfall skrímsla talsvert hærra þar en annarstaðar á Íslandi og því mælum við með því að kynnast þeim í Skrímslasetrinu á Bíldudal, það er æskilegra en að mæta þeim út í fjöru. Ef viðkvæmar sálir og lítil hörtu þurfa smá huggun, fegurð og gleði eftir skrímslakynnin er upplagt að gera sér ferð út í Selárdal, þar sem listamaðurinn með barnshjartað bjó. Það er okkar yndislega Disney veröld. Þar má einnig heimsækja sveitabæ Gísla á Uppsölum.

Á Tálknarfirði er lítil sjálfsafgreiðslufiskibúð sem selur þann ferskasta fisk sem þú færð, og viðskiptahættirnir byggjast á því að treysta því að viðskiptavinirnir greiði fyrir vörurnar. Það verður varla vestfirskara en það. Fyrir þá sem ekki hafa tekið ferðagrillið með sér er tilvalið að snæða kvöldverð í Stúkuhúsinu á Patreksfirði. Þar er boðið upp á dýrindis mat í fallegu húsi með útsýni yfir allan Patreksfjörðinn.

DAGUR 5

Er ekki alltaf best að geyma það besta þar til síðast? Þessi dagur verður að minnsta kosti alveg magnaður fyrir náttúru unnendur. Við byrjum daginn á því að heimsækja hann Garðar gamla, sem er fyrsta stálskip okkar íslendinga, en því hefur verið strandað í Skápadal í Patreksfirði og er skipið eitt af fjölmörgum instagramstjörum Vestfjarða.

Áfram liggur leiðin út á Látrabjarg, sem er 14 km langt og 440m hátt bjarg sem rís úr hafinu, þetta er stærsta fuglabjarg Íslands og fjölmennasta lundavarp heims, þar sem hægt er að komast í ótrúlega nálægð við þennan sendiherra okkar. Ótrúlegt en satt þá eru fleiri og skemmtilegri lundar á Látrabjargi en á Laugaveginum í Reykjavík. Látrabjargið er einnig magnaður staður þegar kemur að sjóslysum og björgunum og því skaltu alls ekki missa af minjasafninu á Hnjóti þar sem fræðast má líf og dauða fólks við Bjargið.

Næst er förinni heitið niður á Rauðasand. Það er töfrum líkast að ganga berfætt út á þennan sólbakaða rauða sand sem virðist engan enda ætla að taka, og þarna svo fjarri allt og öllum má finna lítið franskt kaffihús sem er fallegt vin í þessari blautu, rauðu eyðimörk.

Nú fer að líða að lokum og ferjan Baldur nálgast ófluga til að sækja þig og flytja aftur í gráan hversdagsleikann við Miklubraut. En á meðan þú bíður getur þú notað seinustu andartökin á Vestfjörðum í Hellulaug við Flókalund, þar sem heitt vatnið lekur niður klettana á bakvið þig á meðan þú reynir að telja eyjarnar í Breiðafirði fyrir framan þig.

Allar myndirnar í þessari færslu og fleiri til má finna á Instagramsíðu Eyþórs, verslunarstjóra Gömlu Bókabúðarinnar á Flateyri.

Bóksala í 100 ár!

Bókaverzlun Jóns Eyjólfssonar var stofnuð þann 25. maí 1920 og fagnar því aldar afmæli í dag. Bókaverzlunin var í raun sjálfstæð verslun á sér kennitölu sem var rekin samhliða Versluninni Bræðurnir Eyjólfsson sem var stofnuð nokkrum árum fyrr og saman mynda þessar verslanir Gömlu Bókabúðina, eins og við þekkjum hana í dag.

Hér fyrir neðan má lesa bréf ábyrgðarmanna verslunarinnar og kunnum við þeim bestu þakkir fyrir að ábyrgjast bóksölu Jóns Eyjólfssonar á sínum tíma.

Við undirritaðir skuldbindum okkur hér með til sem sjálfskuldaábyrgðarmenn, einn fyrir báða og báðir fyrir einn, að ábyrgjast Bóksalafélaginu í Reykjavík full skil samkvæmt lögum þess á andvirði bóka þeirra er herra Jón Eyjólfsson á Flateyri fær hjá því sem útsölumaður nefnds félags.  Rísi málsókn út af vanskilum við félagið af hendi herra Jóns Eyjólfssonar, Flateyri skuldbindum við okkur, einn fyrir báða og báðir fyrir einn, samkv. 17. gr. viðskiftaskilyrða Bóksalafélagsins við útsölumenn sína, til að hlíta varnarþingi í slíku máli fyrir gestarétti Reykjavíkurkaupstaðar, sem og öðrum ákvæðum nefndra greinar. Til staðfestu er ábyrgðarskjal þetta af okkur undirskrifað í viðurvist tveggja tilkvaddra votta.
Flateyri, 25. maí 1920
Snorri Sigfússon
Kr. Ásgeirsson

Vitundavottar:
Guðm. Sigurðs
Sturla Ebenenzersson

Í tilefni af tímamótunum létum við slá gullmynt í nafni verslunarinnar. Fyrir utan að vera skemmtilegur safngripur má versla 1 kg af notuðum bókum fyrir hverja mynt. Auk þess að slá mynt í tilefni af afmælinu verður haldin mikil rithöfunda- og tónleikaröð í kaupmannsíbúðinni út árið, og hefst sú dagskrá á sýningu Auðar Jónsdóttir, þar sem hún fjallar um bók sína, Ósjálfrátt, sem gerist að miklu leiti á Flateyri.

Skemmtileg leið til að styrkja Gömlu Bókabúðina!

Ef allt væri eðlilegt hefði dagleg opnun Gömlu Bókabúðarinnar hafist upp úr páskum og værum við nú þegar búin að taka við fyrstu skemmtiferðaskipum sumarsins og allt komið á fullt hjá okkur. Þess í stað er enn lokað hjá okkur og enginn ferðamaður á ferðinni. (Opnum 1. júní 2020)

Sumarið 2019 tókum við á móti tæplega 13,000 gestum í Gömlu Bókabúðinni, þar af um 4,500 gestir af skemmtiferðaskipum og annað eins af öðrum erlendum ferðamönnum. Íslenskir gestir verslunarinnar voru því aðeins um fjórðungur af þeim sem heimsóttu og versluðu við Gömlu Bókabúðina seinasta sumar.

Þar að auki versla erlendir gestir töluvert meira hjá okkur en þeir innlendu, svo að við sjáum fram á um 70-80% tekjusamdrátt í sumar, og ekki voru tekjurnar nú miklar fyrir.

Því höfum við boðið upp á þá nýjung í gegnum netverzlunina hjá okkur að það er hægt að styrkja verslunina um 10 Evrur, eða um 1,500 kr og fá að launum fallegt póstkort með mynd eftir verslunarstjóran. Póstkortið verður sent til þín með fallegri persónulegri kveðju og vax innsigli verslunarinnar ásamt íslensku frímerki.

Eins er hægt að kaupa póstkort til að senda vinum og vandamönnum. Þannig er hægt að nýta þetta líkt og skeyti, sem voru send hér áður fyrr við minnstu tilefni. Hægt er að panta póstkortið í netverzlun okkar hér á síðunni eða með því að hafa samband í netfangið jovinsson@gmail.com.

Við sendum um allan heim og er sama verð, hvort sem sent er innanlands eða til Afríku eða Suðurskautsins.

Fara í netverzlun Gömlu Bókabúðarinnar.


Fá sent póstkort frá elstu upprunalegu verslun Íslands

Hér er hægt að panta póstkort og greiða með greiðslukorti eða í gegnum paypal.

€10.00


Ný teikning af Bókabúðinni

Hún Marta Sif hjá martasif.com teiknaði þessa skemmtilegu mynd af Gömlu Bókabúðinni. Myndin verður nýtt til að setja á stílabækur og aðra muni sem verða til sölu hjá okkur í sumar. Marta hafði áður teiknað fyrir okkur götumynd Hafnarstrætis sem hefur verið þrykkt á bókamerki sem eru komin í sölu hjá okkur.